Myndasöfn

SAFNKOSTUR er um 500.000 ljósmyndir á glerplötum, filmum og pappír auk stafrænna mynda. Meginhluti safnsins eru myndir og filmur frá ljósmyndurum er starfað hafa á Ísafirði allt frá 1889, m.a. Ljósmyndastofu Björns Pálssonar, Ljósmyndastofu M. Simson, Ljósmyndastofu Jóns Aðalbjarnar Bjarnasonar, Arnþrúðar Aspelund, Ljósmyndastofu Ísafjarðar og Ljósmyndastofu Leós Jóhannssonar. Einnig eru í safninu ljósmyndir frá Vestfirska fréttablaðinu, auk myndasafna frá einstaklingum.

Í tilefni af flutningi safnanna (bóka-, skjala-, ljósmynda- og listasafns) í ný húsakynni árið 2003 var safninu afhent filmusafn Jóns Hermannssonar, loftskeytamanns á Ísafirði, um 10.000 myndir aðallega atvinnulífsmyndir frá 3ja aldarfjórðungi 20. aldar. Í safninu er einnig varðveitt söfn Sigurgeirs B. Halldórssonar, um 1.000 myndir frá miðri 20. öld, Hauks Sigurðssonar ljósmyndara (um 24.000 myndir) og frá ljósmyndastofunni Myndás um 40.000 myndir. Árið 2007 bárust safninu 76.000 myndir frá Þorsteini J. Tómassyni á Ísafirði og árið 2009 var allt filmusafn héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta afhent.