Júní 2021

 

Pálína litla

Þessi mynd er tekin þann 1. apríl 1908 á Ljósmyndastofu Björns Pálssonar á Ísafirði. Á henni er stúlka á þriðja ári. Hún hét Kristín Pálína Guðmundsdóttir og var kölluð Pálína.

Pálína litla fæddist á Ísafirði 27. nóvember 1905. Móðir hennar hét Kristín Pálína Ebenezersdóttir, fædd 9. júlí 1877. Þær mæðgur gengu báðar undir seinna nafni sínu.

Pálína eldri var dóttir Margrétar Bjarnadóttur (1850-1936) og Ebenezers Arnórssonar (1846-1884) frá Meirahrauni í Skálavík. Þegar Pálína eldri var ólétt af Pálínu litlu veiktist hún af lungnabólgu sem dró hana til dauða nokkrum dögum eftir að dóttirin fæddist, eða þann 2. desember 1905.

Pálína litla var í fóstri hjá hjónunum Elísabetu Árnadóttur og Jóni Ebenezerssyni sem bjuggu í Tangagötu 10 á Ísafirði og bjó hún hjá þeim þegar hún lést. Dánarmein hennar er ekki að finna í skrá yfir látna árið 1909.

Eftirlifandi maður Pálínu og faðir Pálínu litlu var Guðmundur Þorbjarnarson trésmiður, fæddur 17. september 1856, sonur Þorbjarnar Gissurarsonar (1830-1905) og Sesselju Magnúsdóttur (1837-1912). Pálína og Guðmundur ólust bæði upp hjá Ólafi Gissurarsyni, föðurbróður Guðmundar og konu hans Kristínu Pálsdóttur á Ósi í Bolungarvík. Guðmundur starfaði áfram á Ísafirði sem trésmiður eftir lát Pálínu konu sinnar. Árið 1902 stofnaði hann trésmíðastofu ásamt  Jóni H. Sigmundssyni og Jóni Þ. Ólafssyni.  Árið 1906 stofnuðu þeir svo trésmiðjuna Víking sem tók að sér alls kyns smíða- og byggingatengd verkefni víða um Vestfirði. Víkingur var hlutafélag sem margir höfðu lagt fé í á sæðinu, en félagið fór í gjaldþrot árið 1912. Eftir að verksmiðjan lokaði flutti Guðmundur til Suðureyrar þar sem hann bjó æ síðan hjá systur sinni og manni hennar og starfaði áfram við iðn sína. Guðmundur lést á Suðureyri 18. október 1937.

Á myndinni sést að Pálína litla hefur  átt við einhvers konar fötlun og stríða og hefur annað hvort vantað á hana annan handlegginn eða  hann verið falinn undir kjólnum.

Mynd þessi var í eigu Bárðar Guðmundssonar bókbindara. Myndin var meðal 68 mynda Bárðar sem færðar voru safninu þann 22. júní síðastliðinn af Hólmfríði Guðmundsdóttur barnabarni Bárðar.

 

Heimildir:
Íslendingabók
Manntal.is
Prestþjónustubók Eyrarsóknar 1898-1909, skrá yfir fædda og látna 1905, skrá yfir látna 1909.
Skrá Björns Pálssonar 1891-1916.
Sóknarmannatal Eyrarsóknar 1907-1913. Skrá yfir íbúa Eyrarsóknar 1908.
Vestri, 15. tbl. 1909, bls. 59.
Vestri, 5. tbl. 1917, bls. 18.
Vestri, 9. tbl. 1905, bls. 37.
Þjóðviljinn, 50. tbl. 1905, bls. 198.