„Fyrirgéfðu mjer þessar fáu línur ...“

Ísafirði 19. maí ´89

Elsku Jóna mín

Guð géfi þjer allar stundir góðar og gleðilegar. Jeg þakka þjer kjærlega fyrir tilskrifið í vetur og mjer þikir ógn vænt um hvað þú er vel niður komin í skript og lærir fleira. Jeg gét ekkert skrifað þjer sem þú hefir gaman að og ekki get jeg heldur sent þjer neitt að gamni þínu núna þó jeg vildi þá er svo ástatt fyrir mjer nú. Mikið má hver einn vera þakklátur við Guð sem alt gott géfur það er hrífandi á hug og til felli hvað blessuð tíðinn er unaðsrík og góð og alt er farið að blómgast. Nú er gaman þegar fuglinn er að safnast saman og hlinna að éggunum sínum ó hvað þið eigið gott að hafa gaman af því sem er svo skemtilegt það er minna um náttúrufegurðina hér sem maður sjer aldrey svo mikið sem grasblett. Fyrirgéfðu mjer þessar fáu línur elsku besta Jóna mín og vertu kjærlegast kvödd af þinni vinu Steinunni Júlíönu Magnúsdóttur.

- - -

Steinunn Júlíana Magnúsdóttir fæddist 25. júlí 1865. Foreldrar hennar voru hjónin Magnús Jónsson og Ingunn María Bjarnadóttir í Sveinshúsum við Ísafjarðardjúp. Var þetta annað hjónaband Ingunnar en áður hafði hún verið gift Steini Þorgilssyni, skipasmið í Reykjarfirði við Djúp. Magnús fórst í sjóslysi 2. maí 1866 og flutti Ingunn þá frá Sveinshúsum og gerðist vinnukona á Látrum við Mjóafjörð. Þar var fyrir Halldór Guðmundsson vinnumaður og gengu þau Ingunn í hjónaband haustið 1876 og gerðust bændur í Þernuvík. Þau eignuðust einn son Halldór, f. 1. júní 1969, en auk þess eignaðist Halldór utan hjónabands dótturina Jónu Sigríði, f. 13. september 1879, sem ólst upp hjá þeim hjónum.  Steinunn Júlíana var hjá móður sinni og fóstra í Þernuvík fram á fullorðinsár en árið 1890 var hún skv. manntali á Ísafirði, vinnuhjú hjá hjónunum Símoni Alexíussyni og Málfríði Þorláksdóttur. Þar kynntist Steinunn tilvonandi eiginmanni sínum, Þorláki Árnasyni, sem var fæddur 31. júlí 1862 á Skarði í Gönguskörðum í Skagafirði. Hann flutti með foreldrum sínum á Ísafjörð vorið 1884 og stundaði þar daglaunavinnu og sjóðróðra. Sumarið 1892 sigldu Þorlákur og Steinunn til Kanada og giftu sig sama haust að Brú í Argylebyggð. Þar bjuggu þau fram að aldamótum en fluttu sig þá vestur að Qu'Appelle-dalnum í Tantallon Sask. og bjuggu þar síðan. Þau eignuðust átta börn en þrjú þeirra dóu í æsku. Þorlákur lést 7. mars 1933 en Steinunn síðar, dánardægur er óþekkt.

Meðfylgjandi bréf er að öllum líkindum skrifað til hálfsystur Steinunnar, Jónu Sigríðar, en hún var á þessum tíma búsett í Æðey ásamt föður sínum, Ingunni fóstru sinni og Halldóri. Eftir að Jóna Sigríður komst til fullorðinsára bjó hún lengstum í Bolungarvík en giftist aldrei. Hún lést 28. desember 1956. Jóna Sigríður eignaðist eina dóttur, Ingunni Maríu Halldóru Guðmundsdóttur, f. 6. júlí 1923. Faðir hennar var Guðmundur Steinsson, sjómaður í Bolungarvík, er fórst með vélbátnum Agli frá Bolungarvík 7. nóvember 1923. Halldóra var tekin í fóstur af hjónunum Guðna Einarssyni og Bjarnveigu Guðmundsdóttur á Seljalandi í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Hún lærði hjúkrunarfræði og starfaði nánast allan sinn starfsaldur við sjúkrahúsið á Ísafirði. Halldóra lést 8. september 2008.

Ljósmynd: Jóna Sigríður Halldórsdóttir í Æðey árið 1896. (Ljósm. Björn Pálsson / Ljósmyndasafnið Ísafirði).