Knattspyrnufélagið Hörður

„Knattspyrnufélagið Hörður“ er heiti sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði var með í tilefni af norræna skjaladeginum 2012. Það ár afhenti Knattspyrnufélagið Hörður Skjalasafninu Ísafirði verulegt magn skjala og ljósmynda tilheyrandi starfsemi félagsins. Sýnd voru skjöl og ljósmyndir úr þessari afhendingu en félagið á sér langa sögu, stofnað 27. maí 1919.

Liðsmenn Knattspyrnufélagsins Harðar og Fótboltafélags Ísafjarðar árið 1922. Síðarnefnda félagið var stofnað árið 1912 og höfðu piltarnir sem stofnuðu Hörð áður sótt æfingar hjá því félagi. Þegar knattspyrnulið bæjarins voru orðin tvö færðist mikið fjör í knattspyrnuiðkunina og voru kappleikir félaganna tíðir. Árið 1923 hætti Fótboltafélag Ísafjarðar að senda lið til keppni og var félaginu svo formlega slitið árið 1926. Eftir það hnignaði knattspyrnuiðkun um nokkurt skeið enda gátu Harðverjar þá einungis keppt innbyrðis og við gesti, t.d. erlenda sjóliða. Árið 1926 var hins vegar nýtt knattspyrnufélag, Vestri, stofnað af knattspyrnumönnum sem áður höfðu verið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar.

Það var á vordögum 1919 sem 12 ungir menn komu saman í Sundstræti 41 á Ísafirði til að ræða stofnun knattspyrnufélags. Þeir höfðu áður sótt æfingar hjá Fótboltafélagi Ísafjarðar en fannst þörf á öðru félagi í bænum. Hlaut nýja félagið nafnið Knattspyrnufélagið Hörður og var fyrsta stjórnin skipuð Þórhalli Leóssyni formanni, Dagbjarti Sigurðssyni gjaldkera og Helga Guðmundssyni ritara.

Lengi vel hafði Hörður aðeins einn flokk fullorðinna en árið 1931 voru settir á stofn 2. og 3. flokkur og varð sá hópur pilta afar sigursæll er fram liðu stundir. Fram til 1933 var knattspyrna eina íþróttagreinin sem stunduð var innan félagsins en þá var stofnuð sérstök handknattleiksdeild stúlkna. Vorið 1937 gekkst Hörður fyrir námskeiði í frjálsum íþróttum og í kjölfarið eignaðist félagið fjölmarga snjalla frjálsíþróttamenn sem áttu Íslandsmet í sínum greinum og kepptu fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi. Um og eftir 1940 var farið að stunda fimleikar og glímu innan vébanda félagins og um svipað leyti var farið að ræða stofnun skíðadeildar. Byggður var skíðaskáli í samvinnu við Skíðafélag Ísafjarðar og gjörbreyttist þá til hins betra öll aðstaða til að stunda skíðaíþróttina. Eignuðust Harðverjar marga afreksmenn á skíðum, konur og karla, sem urðu margfaldir Íslandsmeistarar og kepptu á alþjóðamótum, m.a. Ólympíuleikum.

Knattspyrnuleikur á Hrossataðsvöllum á Ísafirði um 1925. Líklegt er að þarna hafi lið Fótboltafélags Ísafjarðar og Knattspyrnufélagsins Harðar att kappi hvort við annað. Vorið 1913 fékk Fótboltafélag Ísafjarðar heimild bæjarstjórnar til að ryðja sér leikvöll og setja upp markstangir á ytri hluta Eyrartúnsins. Leikvöllurinn var ruddur á svokölluðum Hrossataðsvöllum og þar var aðalknattspyrnuvöllur bæjarins um árabil, eða þar til Ísfirðingar gáfu sjálfum sér nýjan knattspyrnuvöll á Torfnesi í tilefni af aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar árið 1966.

Hörður starfaði af krafti fram á seinni hluta 20. aldar en þá tók að draga af félaginu og undir lok aldarinnar var lítil starfsemi í gangi. Þá kom til sögunnar maður að nafni Hermann Níelsson, íþróttakennari, sem hafði verið alinn upp í Herði þegar starf félagsins var sem blómlegast. Tókst honum, ásamt samstarfsmönnum sínum, að byggja upp öfluga glímusveit innan félagsins jafnframt því sem teknar voru upp að nýju æfingar í frjálsum íþróttum og handbolta. Í dag, þegar styttist í aldarafmæli félagsins, starf Hörður af miklum krafti í þessum íþróttagreinum.