Apríl 2014

HINRIK FRÆNDI

Hinrik Jónsson fæddist á Mosvöllum árið 1857 (skv. Íslendingabók), sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Ingibjargar Pálsdóttur. Hann var sjómaður á yngri árum og missti þá vinstri handlegginn af byssuskoti eða sprengingu. Hinrik var lengi í siglingum, fór víða og mun hafa komið í flest lönd Norðurálfunnar. Þegar hann sneri aftur heim til Íslands hóf hann störf við verslun í Borgarnesi þar sem hann komst í kynni við tilvonandi eiginkonu sína, Oddnýju Ásgeirsdóttur frá Lundar í Stafholtstungum. Þegar verslunin brann fluttu þau til Kanada, hann árið 1886 og hún tveimur árum seinna. Hófu þau búskap í svokallaðri Lundarbyggð. Mun Hinrik hafa verið fyrsti póstafgreiðslumaður í þeirri nýlendu og nefndu þau hjón pósthúsið Lundar eftir æskuheimili Oddnýjar. Innan fárra ára tóku þau sig upp og fluttu að Ebor í vesturhluta Manitoba. Þar tóku þau sér heimilisréttarland og keyptu síðar fleiri lönd og voru með mikinn búskap um 40 ára skeið. Var löngum orð á því gert, hve ótrúlega mikilli vinnu Hinrik gat afkastað þó einhentur væri og munu fáir bændur hafa afkastað meiri vinnu en hann þótt þeir hefðu báðar hendur heilar. Á efri árum fluttu þau hjón til Winnipeg þar sem Hinrik lést árið 1946 og Oddný árið 1953. Þau eignuðust 11 börn og lifðu þau öll utan yngsta barnið, drengur, sem þau misstu á fyrsta ári. 

Ljósmyndin af Hinrik kemur úr búi Finns Finnssonar og Guðlaugar Sveinsdóttur á Hvilft í Önundarfirði. Amma Guðlaugar hét Guðlaug Pálsdóttir og var systir Ingibjargar, móður Hinriks.