Um ljósmyndasafnið

SAFNKOSTUR er um 500.000 ljósmyndir, á glerplötum, filmum og pappír auk stafrænna mynda. Meginhluti safnsins eru myndir og filmur frá ljósmyndurum sem starfað hafa á Ísafirði frá 1889.

MARKMIÐ safnsins er að safna, skrá og varðveita ljósmyndaefni, svo sem ljósmyndir, glerplötur, filmur og skyggnur, sem og önnur gögn og skjöl sem tengjast greininni og hafa menningarsögulegt gildi fyrir héraðið. Við rekstur safnsins er lögð áhersla á að varðveisla mynda, filma og annarra gagna sé eins og best verður á kosið. Ennfremur að veita aðgang að þeim á safninu eða með stafrænum hætti á vefnum. Safnið tekur við og varðveitir efni frá fyrirtækjum, stofnunum og einkaaðilum, sé þess óskað.

SAFNIРer í eigu Ísafjarðarbæjar, bæjarráð Ísafjarðar fer með yfirstjórn safnsins, sem er að öðru leyti í höndum forstöðumanns. Safnið starfaði sem deild í héraðsskjalasafninu frá 1970, en hefur verið sjálfstæð stofnun frá flutningi þess í nýtt húsnæði í safnahúsinu 2003 og starfar samkvæmt Samþykkt fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði frá 2003. Safnið starfar samkvæmt lögum um söfn, um höfundarrétt og lögum um meðferð menningarverðmæta.