Aðgangur að skjölum

Aðgangur að skjölum varðveittum á safninu er skv. upplýsingalögum nr. 50/1996, lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga  nr. 77/2000, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og/eða öðrum lögum sem gilda þar um. Nánari upplýsingar gefa starfsmenn safnsins.

Skjalasafn Ísafjarðar er opið öllum án aðgangseyris. Að jafnaði gildir sú regla að hverjum þeim, sem þess óskar, er heimill aðgangur að skjölum í vörslu safnsins.

Á þessu eru nokkrar undantekningar sem flestar lúta skjölum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að skjölum sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Takmarkaður aðgangur getur verið að ákveðnum skjölum um viðskipti stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins að því leyti sem það er í samkeppni við aðra.

Skjöl sem innihalda upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga, eru ekki opin öðrum en þeim sem málið varðar fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra. Sækja þarf skriflega um aðgang að trúnaðarskjölum og framvísa gildum persónuskilríkjum með ljósmynd við komu á safnið.

Mögulegt er að takmarka þurfi aðgang að skjölum vegna þess að þau séu í slæmu ástandi. Misjafn aðgangur er að einkaskjalasöfnum, enda geta afhendingaraðilar sett skilyrði um aðgang.