Lestrarsalur

Lestrarsalur Skjalasafns Ísafjarðar er í Safnahúsinu við Eyrartún, Gamla sjúkrahúsinu, 2. hæð. Á lestrarsalinn koma þeir sem vilja fá skjöl eða aðrar upplýsingar tengdar starfsemi skjalasafnsins. Misjafnt er hversu fljótlegt er að afgreiða skjöl og getur verið gott að panta þau fyrirfram. Á salnum eru tengi fyrir tölvur og í húsinu er þráðlaus nettenging.

 

Eftirfarandi reglur gilda um notkun skjala á lestrarsal Skjalasafns Ísafjarðar:

1. Gestir skulu snúa sér til skjalavarðar í afgreiðslu með fyrirspurnir sínar og hlíta fyrirmælum hans.

4. Gestir skulu hafa hljótt um sig og eru beðnir að valda ekki öðrum ónæði. Notkun gsm síma er bönnuð á lesstofu.

3. Neysla matar og drykkjar er óheimil á lesstofu.

5. Bannað er að skrifa í bækur og skjöl eða merkja á nokkurn hátt. Óheimilt er að fylgja línum með fingri, penna- og blýantsoddi. Gögnin eru heldur ekki ætluð sem undirlag við lestur eða skriftir.

6. Ekki má láta bækur hvíla á borðbrún eða liggja í kjöltu sér. Slíkt veldur skemmdum á bókarkili eða blöðum þegar flett er. Skylt er að sýna fyllstu aðgát og tillitssemi í meðferð bóka og skjala og hafa hreinlæti og snyrtimennsku ætíð í heiðri.

7. Hver gestur fær að öllu jöfnu mest lánaðar 3 bækur, böggla eða öskjur í senn. Skjölum í skjalabögglum skal halda í sömu röð og þegar þeir eru afhentir.

8. Gögnum skal skilað til skjalavarðar á lesstofu eigi síðar en 10 mínútum fyrir lokun.

10. Leita skal heimildar skjalavarðar fyrir ljósritun og skal hann almennt sjá um hana. Gjaldskrá fyrir ljósritun liggur frammi.

11. Heimilt er að ljósmynda skjöl með myndavél, brjóti það ekki í bága við lög sbr. Upplýsingalög nr. 50/1995 og Lög um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga nr. 77/2000. Ávallt skal þó fá samþykki skjalavarða áður en skjöl eru ljósmynduð.

12. Gæta skal fyllstu varúðar við myndatökuna og gæta þess að skemma ekki skjöl eða bækur með þvingunum eða öðrum hætti. Ekki reyna að slétta blaðrönd sem er trosnuð (rifin og slitin) eða beygluð. Hafa skal samband við skjalavörð í slíkum tilvikum.

13. Ekki má nota leifturljós (e.flash) við myndatöku.

14. Ekki má mynda skjöl sem innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar.

15. Ekki má mynda skjöl sem eru varin af höfundarréttarákvæðum svo sem ljósmyndir með höfundarnafni.