Október 2023

FRANSKIR VÍSINDAMENN Á ÍSAFIRÐI SUMARIÐ 1913

Föstudaginn 8. ágúst 1913 stillti þessi hópur fólks sér upp fyrir myndatöku í garðinum við Templaragötu 2 (Hrannargötu 2) á Ísafirði þar sem Magnús Torfason, sýslumaður og bæjarfógeti, var búsettur. Styrmer prmlt (premierløjtnant) var skráður fyrir myndatökunni en hann fór fyrir hópi landmælingamanna sem dvöldu á Ísafirði þetta sumar á vegum danska herstjórnarráðsins. Lengst til hægri á myndinni er Harald Tang kaupmaður og eigandi Tangsverslunar í Hæstakaupstað. Eiginkona hans, Ida Tang (fædd Ellefsen) er fyrir miðju með hvítar fjaðrir í hatti sínum. Þá má ætla að Styrmer lautinant sé þriðji frá vinstri. Fjórði maður frá hægri er franski vísindamaðurinn og landkönnuðurinn, Jean-Baptiste Charcot. Eiginkona hans, Meg Cléry-Charcot, er líklega hin konan á myndinni. Aðrir eru óþekktir en einhverjir þeirra líklega franskir vísindamenn sem tóku þátt í leiðangri Charcot þetta sumarið.

Jean-Baptiste Charcot hafði reglulega viðkomu á Íslandi í leiðöngrum sínum allt frá árinu 1902 og þar til að hann fórst með skipi sínu Pourquoi Pas? við Álftanes á Mýrum 16. september 1936. Sumarið 1912 fór Pourqoui Pas? í tvo tveggja mánaða leiðangra, fyrra tímabilið var siglt á Ermasund og Atlantshaf en seinna tímabilið var siglt á Suðureyjar undan Skotlandi, Færeyjar, Jan Mayen og Ísland. Þann 27. júlí 1912 greindi ísfirska fréttablaðið Vestri frá því að franskt rannsóknaskip, Pourqoui pas?, hefði komið til Ísafjarðar daginn áður „ ... og heitir sá Charcot er förinni ræður.“

Sumarið 1913 voru aftur tveir leiðangrar með sama fyrirkomulagi og áður. Í þeim fyrri var siglt um Biskayaflóa og strandsvæði Spánar en í þeim seinni var aftur siglt á Suðureyjar, Færeyjar, Jan Mayen og Ísland. Með í þeirri för voru eftirfarandi vísindamenn: E. Le Danois (docteur ès sciences), E. Gourdon (docteur ès sciences), Doat (professeur d’hydrographie), Bertin (professeur d’hydrographie). Síðast en ekki síst þá var um borð listmálari leiðangursins, Meg Charcot (peintre de l’expédition), eiginkona leiðangursstjórans.

Þann 21. júlí 1913 birtist eftirfarandi fréttaklausa í blaðinu Vísi: „Pourquoi Pas, hafrannsóknarskip, er kom hjer í fyrra, lagði af stað frá St. Malo til hafrannsóknar hjer við land, og dvelur hjer sumarlangt.“ Frekari fréttir af skipinu bárust 2. ágúst en þá var það komið til hafnar á Akureyri og segir blaðið Norðurland svo frá: „Hafís er sagt að sé nú talsverður hér norðan við landið. Frakkneskt rannsóknaskip er legið hefir við »Jan Main« nú undanfarið kom hingað inn á höfn í gær og kvaðst hafa orðið að fiýja undan hafís frá eynni.“ Viku síðar var skipið væntanlegt til Reykjavíkur skv. frétt í blaðinu Vísi: „»Pour quoi pas«, hafrannsóknarskipið frakkneska, er væntanlegt í dag. Eigandi þess, Charcot náttúrufræðingur, er á skipinu.“ Hvergi er getið um komu skipsins til Ísafjarðar en það hefur án nokkurs vafa haft viðkomu þar á ferð sinni vestur fyrir land áleiðis til Reykjavík. Þar hefur hinum frönsku leiðangursmönnum augljóslega verið tekið vel af dönskum fyrirmennum og fulltrúum danska herstjórnarráðsins.


Heimildir:

https://jbcharcot.fr/accueil/campagne-du-pourquoi-pas/

https://www.priaulxlibrary.co.uk/articles/article/quite-guernseyman-jean-baptiste-charcot

https://timarit.is: Norðurland 2. ágúst 1913, 114.

https://timarit.is: Vestri 27. júlí 1912, 114.

https://timarit.is: Vísir 21. júlí 1913, 1.

https://timarit.is: Vísir 9. ágúst 1913, 1.