Manndauði upp úr mislingum

 
 
 
 
 
 
 
Frétt úr blaðinu Vestra 25. júlí 1904, bls. 151.

Mislingar.

Eptir D. Sch. Thorsteinsson, hjeraðslæknir. [Úr Vestra 25. júlí 1904]

Mislingarnir hafa hjer í sýslu valdið þeim eldi, sem vansjeð er hvar eða hvenær verður slökktur.

Þeir hafa verið aðalumtalsefnið hjer í sýslu – og máske víðar – nú um síðastl. 6 vikna tíma, og margt verið um þá skrafað - misjafnlega rjett hermt sumt  - eins og gengur, og ætla jeg mjer ekki að fara að eltast við það málskraf allt í þetta sinn. – Í blöðunum hafa líka komið um þá ýmsar greinar, t. d. Ísafold.  En þótt það kunni ef til vill að þykja borið í bakkafullan lækinn að minnast á þá frekar, ætla jeg þó að rita um þá greinarkorn.

Mislingar koma eins og kunnugt er frá útlöndum, farmgjaldslaust og tollgjaldslaust, – og ekki eru þeir pantaðir, – en þeir koma samt. Þeir hafa komið hingað til lands fleirum sinnum á þessari öld, en aldrei breiðst út um allt land nema árin 1846 og 1882. – í hin skiptin hafa þeir orðið stöðvaðir eptir að þeir hafa – optast nær að minnsta kosti – gert meiri og minni usla og óskunda – valdið manndauða og fjártjóni.

Í ár hafa mislingar komið upp í Norður-Ísafjarðarsýslu á tveim stöðum: á Hesteyri og á Langeyri. Frá hinum síðarnefnda stað hafa þeir borist út um sýsluna – og máske lengra – og skal jeg síðar skýra frá atvikum sem þar að liggja.

En jeg hafði hugsað mjer að gera nokkrar athugasemdir um sóttvarnir gegn mislingum »frá almennu sjónarmiði«, og ætla jeg þá fyrst að minnast á mislingana á Hesteyri. Þeir bárust þangað í vor með Norðmönnum, er þar hafa hvalstöð. Jón hjeraðslæknir Þorvaldsson sóttkvíaði hvalastöðina þegar í stað er hann varð var við veikina, og barst hún ekki út þar í kring. Frá þessu hefir áður verið skýrt í blöðunum og er rjett hermt, það sem það nœr.

En fleiri manna verður að geta til sögunnar. Með Norðmönnum þessum hafði komið upp Íslendingur einn, B ... að nafni. Hann rjeðist sem háseti á hákarlaskipið »Emma«, sem gengur hjeðan úr kaupstaðnum (frá Tang's verzlun) og var lögskráður á það skip seint í apríl. Var þá ekki orðið vart við veikina á Hesteyri. – En fáum (3?) dögum eptir að hann var lögskráður á skipið sendi Jón hjeraðslæknir Þorvaldsson hingað hraðboða til sýslumannsins útaf mislingum, sem þá höfðu komið upp úr kafmu þar á hvalastöðinni, og ritaði jafnframt stjórnarráðinu um málið, sóttkvíaði hvalastöðina, – gerði með öðrum orðum allar lögboðnar sóttvarnarráðstafanir. Og allir óvinir mislinganna klöppuðu lof í lófa og hjeldu að mislingadraugurinn væri kveðinn niður til fulls og vel geymdur og tryggilega undir innsigli laganna.

En nokkru síðar barst sú fregn hingað að hákarlaskipið Emma hefði hleypt við illan leik inn á Dýrafjörð, og lægju flestir skipverjar í mislingum. – Þetta reyndist því miður satt. Andrjes  hjeraðslæknir Fjeldsted skoðaði skipverja, gaf þann úrskurð að þeir hefðu mislinga, sóttkvíaði skipið fyrst um sinn þar á höfn eins og lög skipa fyrir og sendi það síðan hingað til Ísafjarðar. Hingað kom það á 2. hvítasunnudag, lagðist fyrst á skipalagið, en var þegar í stað látið færa sig á afvikinn stað og sóttkvíað (sóttvarnarveifa, samgöngubann o. s. frv.) Voru skipverjar síðan sótthreinsaðir eptir hæfilega langan líma og fóru síðan á hákarlaveiðar aptur. En hvernig höfðu þeir fengið mislingana? Af B ... þeim, sem fyrri er nefndur. Hvar hafði hann tekið veikina? Á Hesteyri, eða á leiðinni hingað til lands. Hverjum verður nú gefin sök á þessu? Engum manni. Jón hjeraðslæknir Þorvaldsson er alsýkn af því máli. Hann gerði fullkomlega skyldu sína sem embættismaður samkv. lögum 31. jan. 1896. – Er þá ekkert athugavert við þetta? Að því verður vikið síðar.

2. maí var um kvöldið læknirinn í Ísafjarðarhjeraði (D. Sch. Th.) sóttur að Langeyri til að skoða Norðmann, sem veikur var þar á hvalveiðastöðinni. Það sem að manninum gekk reyndust vera mislingar. Var formanni hvalstöðvarinnar þegar í stað tilkynnt þetta, hinn sjúki einangraður í herbergi, sjerstakur maður fenginn til að gæta hans, og hvalstöðin Langeyri lýst i sóttkví þá þegar umkvöldið. Sóttvörn þessi var síðan samþykkt af lögreglustjóra, verðir skipaðir o. s. frv. og stjórnarráðinu tilkynnt þetta. Með brjefi dags. 11. maí var þessi sóttkvíun ennfremur staðfest af stjórnarráðinu.

Nú leið og beið. Jeg var tvívegis á ferð í Álptafirðinum á tímabilinu frá 2. maí til 11. s. m., kom í bæði skiptin á Langeyri til að vita hvernig liði, og stóð þá allt við sama, engir fleiri veikir. Vörðinn sá jeg að minnsta kosti í annað skiptið – Þ. 16. var jeg sóttur að Eyrardal, – næsta bæ við hvalstöðina. Þar var maður veikur, en mislinga gat jeg ekki sjeð á honum, og frjetti ekkert um útbreiðslu þeirra*. Síðustu vikuna af maí fóru að berast hingað til Ísafjarðar ýmsar ógreinilegar frjettir um kvefsótt í Álptafirði, og voru annað veifið bornar til baka og gert lítið úr – læknir aldrei sóttur. Fyrstu dagana af júní fór kvisið að verða meira, og var mjer loks sagt þ. 5. júní, að heyrst hefði að einhver, sem »kvefið« fjekk, hefði orðið rauður um kroppinn. – Allan síðarihluta maímán. og eins framan af júní hafði jeg haft svo miklar annir við sjúklinga hjer út frá – bæði útlenda og innlenda, að jeg hafði ekki komist til að fara inneptir til þess að leysa Langeyri úr sóttkvíun og annast um framkvæmd á sótthreinsun eins og þó hafði staðið til að gert yrði eptir þ. 23. maí. Þ. 6. júní fór jeg loks inn eptir í þessum erindum, og meðfram til þess að forvitnast um hvort nokkuð væri að þar. – Það reyndist því miður svo og það í frekara lagi. – Jeg komst þá að því í þessari ferð, að mislingar höfðu breiðst út þar um fjörðinn hingað og þangað, bæði með börnum, sem próf höfðu tekið á skólanum þ. 16. og 17. maí, að fólk hafði legið í mislingum í Eyrardal, maður sýkst í Súðavik, drengur á Eyri í Seyðisfirði (skólabarn), en sjerstaklega hafði sóttkveikjan borist út eptir messugjörð á Eyri í Seyðisfirði á hvítasunnudag – þar voru þá fermd mörg börn. – Um sama leyti hafði veikst unglings stúlka á Folafæti (milli Seyðisfj. og Hestfj.) Komu þá upp ýmsar sögur um hvar og hvernig sóttin hefði breiðst út, og hirði jeg ekki að greina frá þeim öllum. Það sem mestu máli skiptir er það, að það er nú lögsannað með rjettarprófi, að sóttin hefir breiðst út áður en sóttkvíað var á Langeyri, en verið væg í fyrstu, og verið talin »rauðir hundar«.

Þetta, að sóttin var mjög svo væg í fyrstu, og fór svo merkilega dræmt, að ekki veiktist nema 1 og 1 maður á bæ, þó margir væru á mislingaaldri, mun hafa valdið því að menn töldu þetta ekki mislinga, og töldu enga þörf á að vitja læknis. Hefir mjer orðið þetta miklu skiljanlegra síðar, eptir að sóttin kom hjer í kaupstaðinn. Því að hjer voru ástæðurnar svo, að eptir að jeg hafði sjeð hjer mislinga á börnum og lýst því yfir að þau hefðu mislinga, varð jeg var við nokkurn andróður úr vissri átt gegn þeirri staðhæfingu minni. Voru jafnvel búnar til ýmsar sögur um hver sjúkdómurinn væri, sögur sem jeg ekki vil hafa eptir. – Situr því illa á því sama fólki að lá Álptfirðingum þótt þeir drægju að gera lækni aðvart um veiki, sem þeim fannst vera svo væg, að ekki gæti heitið mislingar, – og vissu ekki hvað var fyrr en eptir 6. júní, að jeg húsvitjaði um fjörðinn. Síðan hefi jeg ekki heyrt Álptfirðinga andæfa neitt þeirri skoðun minni að þetta væru mislingar, en jeg vil ekki fortaka að ekki kunni enn að eima eitthvað eptir af annari skoðun hjer í kaupstaðnum.

En þessi dráttur á að vitja læknis hefir í þetta sinn valdið því að mislingarnir höfðu náð svo mikilli útbreiðslu áður en rönd varð við reist.

Það sem gerst hefir eptir 6. júní er flestum kunnugt: Þ. 7. komu mislingar upp úr kafinu hjer í  kaupstaðnum með unglingstelpu, sem hafði ráðist hingað til vistar, og tekið sóttina við kirkju á Eyri hvítasunnudag.

Sama dag, þ. 7., ritaði jeg lögreglustjóra tillögu mína til sóttkvíunar, þá sömu sem síðar var staðfest af stjórnarráðinu og enn er í gildi; þ. 8. kom Hekla og fór með brjef suður til stjórnarráðsins um þetta mál. 9. júní kom hjer út lögreglubann, 11. júní kom Hekla aptur að sunnan með þá landlækni og landritara, og var þá bannið staðfest og ýmsar ítarlegri sóttvarnar-ráðstafanir gerðar, sem almenningi er kunnugt um.

Hjer endar nú þessi saga að sinni. – Jeg ætla í þetta skipti að leiða hjá mjer að  minnast á allan þann andróður, sem hjer átti sjer stað gegn allri sóttvörn framan af, en vel veit jeg  »hvaðan kennir þef þann« og má vera að minnst verði á það síðar í góðu tómi.

En svo jeg víki nú aptur að því efni, sem fyrr var frá horfið, hvernig geta nú mislingar yfir höfuð borist nokkuð út þegar sóttvörnin er nú lögum samkvæm? – Jeg ætla nú ekki að tala um mislingana í Álptafirði en taka t. d. tilfellið á Hesteyri. – Jafnvel hin vandlætingasama »Ísafold« játar þó að Jón læknir Þorvaldsson hafi að minnsta kosti beitt lögunum eins og tilstóð. Þó bárust mislingar þaðan. Mjer kann að verða svarað: Þaðan sýktist að eins 1 maður. Satt er það, en sá eini maður nægir til að sýkja fleiri hundruð.  – En hann sýkti þó ekki nema örfáa og það kom ekki að meini. Af hverju? Af því að hann var á skipi. Hann gat ekki sýkt fleiri, því að skipið var umflotið. Hvernighefði farið ef B... hefði t. d. ráðið sig í landvinnu hjer á Ísafirði, við fiskverkun, í stað þess að ráða sig á þiiskip, – eða ef hann hefði tekið sjer far til Reykjavíkur þegar hann fór frá Hesteyri ? Hann hefði getað sýkt fleiri hundruð manna. Og þó var lögunum hlýtt fyllilega. – Hvar er þá glompan, sem mislingarnir smjúga út um og hver er gallinn á þessu öllu? Sá að þrátt fyrir þá mörgu kosti, sem mislingar kunna að hafa í sóttvarnarlegu tilliti, hafa þeir þann meinlega og mikla ókost, að svo langur tími gengur frá því að maður tekur sóttkveikjuna og þar til hann veikist að marki, að hann getur sýkt frá sjer tugi, já hundruð manna, ef svo vill til, án þess að unnt sje að koma nokkrum vörnum við.

Það er flestum kunnugt að mislingasóttin gengur svo að segja árlega í útlöndum, er þar landlœg, og sóttkvíanir hafa menn þar gefist upp við. En landrœka vilja margir læknar gera sóttina hjeðan: aldrei fá hana hingað eða aldrei sleppa henni út um land.

Þetta er fögur hugsjón, en því miður erfið er til framkvæmdanna kemur, þótt öllum nú gildandi lögum sje beitt fyllilega eins og jeg þykist hafa sýnt dæmi til hjer að framan. 

*Eptir því sem síðar hefir komið í ljós, mun þessi maður þó að öllum líkindum hafa fengið mislingana, og mundi jeg hafa gengið úr skugga um það ef jeg hefði átt þar heima. – En enga minnstu þýðingu hefir þetta hvað sóttvörnina snertir, því að þótt Eyrardalur hefði verið sóttkvíaður þ. 16. hefði verið gagnslaust eptir því sem síðar hefir komið fram, því þá hefir sóttkveíkjan þegar verið komin um allan fjörðinn og jafnvel inn í Seyðisfjörð, og hver getur sagt hvað langt? – Höf. 

[Grein Davíðs Sch. Thorsteinssonar héraðslæknis birtist í tveimur tölublöðum Vestra og er fyrri hluti hennar birtur hér. Síðari hlutann má finna í Vestra 30. júlí 1904 en þar fjallar héraðslæknirinn almennt um útbreiðslu mislinga og varnir gegn þeim.]