Knattspyrnuleikur Harðar og Ksf. Ísafjarðar árið 1922

Það er ætíð viðburður þegar gamlar heimildir koma fram í dagsljósið eftir margra áratuga dvala í ótilgreindum skjalasöfnum eða geymslum stofnana og einstaklinga. Sigurður Pétursson sagnfræðingur afhenti Skjalasafninu á Ísafirði nýlega leikskýrslu frá leik Ksf. Harðar og Ksf. Ísafjarðar sem háður var á Ísafirði 22. júní 1922. Er þetta elsta leikskýrsla sem fundist hefur frá knattspyrnuleik Ísafjarðarliða.

Leikskýrslan er skrifuð með bleki á línustrikaða pappírsörk af fólíostærð. Á fyrstu síðu er leikskýrslan og á þeirri þriðju er liðsskipanin. Baksíður eru auðar. Skjalið er vel varðveitt, nema trosnað hefur af báðum endum ofan og neðan. Þá hefur skjalið verið gatað til að setja í bréfabindi og síðar rifið út úr götunum, án þess að skerða textann nema lítilfjörlega. Skriftin er regluleg, rituð fallegri hönd með blekpenna.

Hér er hægt að skoða skjalið í betri upplausn.