Hvass og rigning vestan

„Hvass og rigning vestan“ er heiti sýningar sem Skjalasafnið Ísafirði var með í tilefni af norræna skjaladeginum 2010. Sýndar voru dagbækur Guðmundar Jónssonar, lausamanns á Ísafirði, sem skrifaði veðurfarslýsingar daglega frá hausti 1879 til ársloka 1910. Vísar nafn sýningarinnar til fyrstu færslu Guðmundar þann 1. október 1879.

Suðvestan stórviðri veldur miklum skemmdum á Hafnarstræti á Ísafirði

Aðfaranótt 19. nóvember 1936 gerði suðvestan stórviðri um allt land er olli víða tjóni. Vélbátar og minni bátar skemmdust meira og minna í Grindavík, Innri-Njarðvíkum, á Akranesi, í Flatey á Breiðafirði, á Hellissandi, Hólmavík, Siglufirði og Raufarhöfn auk þess sem E/S Goðafoss missti bæði akkerin á Siglufirði. Sjóvarnargarður milli Eyrarbakka og Stokkseyrar brotnaði nokkuð og flóðbylgja skemmdi flóðgarða og girðingar á Rauðasandi og tók út fé. Sjór gekk langt á land í Borgarfirði og Hvítá flæddi yfir bakka sína og olli nokkru fjártjóni. Útihús og þök af húsum fuku víða á Vestur- og Norðurlandi. Loftnet loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík slitnaði, símabilanir urðu í Mosfellssveit og á Kjalarnesi, og síma- og ljósaleiðslur biluðu á Siglufirði.

Segir svo í Morgunblaðinu þann 20. nóvember: „Stormsveipur sá, sem olli hvassviðrinu, var að myndast í fyrradag um 1200 km. suður af Grænlandi. Sveipurinn olli sunnanstormi, sem gekk til suðvesturs. Veðrið var svipað og septemberveðrið (er Pourquoi pas? fórst), en þó öllu meira.“

Á Ísafirði fylgdi veðrinu mikið flóð og sjógangur. Eyðilagðist bryggjustúfur við Grænagarð og Torfnesbryggjan skemmdist mjög mikið. Fiskreitir á Torfnesplani og á Stakkanesi urðu fyrir skemmdum. Hafnarstræti var að kalla gereyðilagt á stórum kafla og flæddi sjór inni í marga kjallara Pollmegin á tanganum og olli tjóni á matvælum og ljósaleiðslum. Hænsnahús, er stóð í flæðarmáli, fauk og drukknuðu eða kól allmörg hænsni er þar voru. Nokkrar skemmdir urðu á bátum í bátahöfninni sem þá var nýgerð.

Varðveist hafa fáeinar ljósmyndir sem sýna vel hvernig sjór gekk yfir eyrina á Ísafirði í þessu veðri. Eru þær úr fórum Ingibjargar Kaldal en hún er barnabarn hjónanna Gunnars Juul lyfsala og Thyru Juul. Þau fluttu til Ísafjarðar árið 1920 þegar Gunnar keypti Lyfjabúð Ísafjarðar af þáverandi eiganda, Gustav Rasmussen. Gunnar lést á Ísafirði árið 1943 og tveimur árum síðar flutti Thyra til Reykjavíkur þar sem hún lést árið 1988.

Heimildir:

Morgunblaðið 20. nóvember, 3; 22. nóvember, 3 og 3. september 1943, 4.
Skutull 21. nóvember 1936, 5.
Veðráttan 1. nóvember 1936, 41–44.
Vesturland 21. nóvember 1936, 178