Janúar 2016

KAUPSTAÐUR VERÐUR TIL

Í byrjun júlí 1866 kom Sigfús Eymundsson til Íslands eftir að hafa dvalið í Noregi og Danmörku þar sem hann lærði bókband og ljósmyndun. Síðar í júlí hélt Sigfús til Ísafjarðar í sína fyrstu myndatökuferð með von um að þar væru næg verkefni enda þrír verslunarstaðir á Ísafirði og aðsetur ýmissa embættismanna. Sigfúsi var vel tekið á Ísafirði og hafði nóg að starfa þann stutta tíma sem hann dvaldi þar eða eins og kemur fram í bréfi sem hann skrifaði Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn: „Jeg hef hér mikið að gjöra svo jeg má vaka Nótt og Dag ma seiga.“ Um fimmtíu mannamyndir frá Ísafirði hafa varðveist frá þessum tíma svo vitað sé en auk þess nokkrar umhverfis- og hópmyndir. Þar á meðal er mynd af Skutulsfjarðareyrinnni og hefur ljósmyndarinn haft fyrir því að klifra upp í fjallshlíðina fyrir ofan eyrina til að ná góðri yfirlitsmynd. Er myndin merkileg heimild um upphaf kaupstaðar á Skutulsfjarðareyri en árið 1866 urðu þau tímamót að verslunarstaðurinn Ísafjörður fékk kaupstaðarréttindi. Mögulega hefur Sigfús verið kominn til Ísafjarðar mánudaginn 16. júlí þegar fyrstu lögbundnu kosningar til bæjarstjórnar á Ísafirði fóru fram í húsum Vedholms gestgjafa. Hann var hins vegar farinn fyrir nokkru þegar fyrsti fundur bæjarstjórnar var haldinn 24. ágúst 1866.

Heimildir: Inga Lára Baldvinsdóttir: Sigfús Eymundsson myndasmiður. Frumkvöðull íslenskrar ljósmyndunar. Reykjavík 2013; Jóhann Gunnar Ólafsson: Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar 100 ára. Ísafirði 1966.