Júlí 2014

Til Sigrúnar

Jóhannes S. Kjarval 1933

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist  í Skaftafellssýslu árið 1885. Fjögurra ára var hann sendur í fóstur til frændfólks síns í Geitavík í Borgarfirði eystra og ólst þar upp.

17 ára gamall fluttist hann til Reykjavíkur. Hann hafði lengi verið áhugasamur um myndlist og einsetti sér að mennta sig og taka framförum á listabrautinni. Vann hann fyrir sér með sjómennsku og ýmsum störfum í landi en teiknaði og málaði þegar tími vannst til. En honum var ljóst að til að ná árangri yrði hann að fara utan. Hann hélt til London árið 1911 en fékk ekki skólavist.  Árið eftir hélt hann til  Kaupmannahafnar og fékk þar inni í Konunglega listaskólanum eftir árs nám í teiknun. Til Íslands kom hann aftur árið 1922, staðráðinn í að stunda myndlist. En það var ekki auðvelt að vera listamaður og lifa á listinni á Íslandi á þessum árum.  Hann bjó á vinnustofu sinni og málaði af miklum krafti en hann fór líka um landið og dvaldist þá í tjaldi oft langtímum saman í misjöfnum veðrum.

Þegar verk Kjarvals eru skoðuð sést hvað hann var fjölhæfur listamaður. Verk hans eru mjög ólík og jafnan má sjá mörg stílbrögð í sömu myndinni. Kjarval er fyrst og fremst þekktur sem málari en hann teiknaði líka talsvert og var þá ekki alltaf kresinn á pappírinn.