Ágúst 2014

LJÓSMYNDASTOFA M. SIMSONS Á ÍSAFIRÐI

Martinus Simson fæddist í Vendsyssel á Jótlandi 9. júní 1886 og ólst upp við landbúnaðar- og skógræktarstörf til 17 ára aldurs en þá hóf hann störf við sirkus og vann sem fjöllistamaður á annan áratug. Hann kom til Íslands með eigin fjölleikaflokk 1915, ferðaðist um landið í tvö ár en settist síðan að á Ísafirði og bjó þar til æviloka. Hann keypti ljósmyndastofu Björns Pálssonar árið 1918 og rak hana til 1957. Hún var fyrst til húsa í Skólagötu, þá í Hafnarstræti 11 og frá 1932 í sérbyggðri  viðbyggingu við Nordpolen, Pólgötu 4. Plötusafn hans er varðveitt hjá Ljósmyndasafninu Ísafirði og telur um 32.000 plötur.

Simson var margt til lista lagt, kenndi m.a. radíótækni við Gagnfræðaskólann á Ísafirði í tvö ár auk þess sem hann smíðaði um 50 útvarpstæki. Þá gerði hann margar höggmyndir, teikningar og málverk. Hann byggði sumarbústað í Tungudal sem hann nefndi Kornustaði og stundaði þar garðyrkju og skógrækt og var einn af stofnendum Skógræktarfélags Ísafjarðar.

Kona Simson var Gerda Louise Petersen (1897-1981) og eignuðust þau 3 börn, Alf Ingolf (1924-1944) og tvíburana Lillian og Elly (f. 1929). Fyrir átti Simson dótturina Agnete (f. 1923) með Guðnýju Gísladóttur (1899-1967). Simson lést þann 15. apríl 1974.

Heimild: Inga Lára Baldvinsdóttir: Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945. Reykjavík 2001.