Janúar 2019

JENS EVERTSEN SOLLIE BAKARI 1845–1903

Norðmaðurinn J. E. Sollie tók við sem bakari í Norskabakaríinu á Ísafirði árið 1888 þegar landi hans Jacob Bye hætti þar sem bakari og flutti til Vesturheims. Bakaríið var byggt af norskum athafnamönnum sumarið 1884 og stendur þar sem nú er Silfurgata 5. Var það eigu Norðmannanna til haustsins 1895 þegar Verslun Á. Ásgeirssonar keypti það. Sollie veitti bakarínu forstöðu fram á vorið 1896 og sneri nokkru síðar aftur heim til Noregs. Ekki undi hann þó lengi þar og kom fljótlega til baka og hóf störf við verslun Sigúsar H. Bjarnasonar konsúls og varð síðar bókhaldari við verslun Árna Sveinssonar. Sollie lést 6. september 1903, 59 ára að aldri, ókvæntur og barnlaus. Í frétt um andlát hans sagði Vestri að fyrir ári síðan hefði hann orðið fyrir því áfalli að detta ofan af þilfari og niður í lest á gufuskipi. Hefði hann aldrei náð sér fullkomlega að heilsu eftir það. Þjóðviljinn ungi sagði að banamein Sollie hefði verið krabbamein í maga „er hafði þjáð hann um hríð, þótt eigi lægi hann rúmfastur, nema hálfsmánaðar tíma.“ Hafði blaðið ennfremur þau orð um Sollie að hann hefði verið „ljúfmenni mesta,er eigi vildi vamm sitt vita, og öllum vildi hjáipa; notuðu sér því ýmsir góðmennsku hans meira, en góðu hófi gegndi, þvi að hann átti örðugt með að segja nei, og vildi engum til ills trúa, þótt opt ræki hann sig á óorðheldni manna, eða sætti þeirri meðferð, sem hjálpsemi hans og góðvilji sízt hafði verðskuldað.“

Þegar Ásgeirsverslun tók við bakaríinu vorið 1896 var ráðinn til starfa þýskur bakari að nafni Gustav Bentzien og lauk þar með norska tímabilinu í bakaríínu við Silfurgötu 5.

Heimildir:
Vestri, 12. september 1903, 175.
Þjóðviljinn ungi, 23. september 1903, 160.