mánudagur 31. maí 2021 | kl. 16:23:02 | Listasafn Ísafjarðar

VAKNING - Listamannsspjall laugardaginn 5. júní

Laugardagurinn 5. júní er síðasti sýningardagur sýningarinnar Vakning í Safnahúsinu Eyrartúni. Af því tilefni verður Guðrún A. Tryggvadóttir með listamannsspjall þar sem hún ræðir við gesti um sýningu sína.

Sýningin Vakning samanstendur af rúmlega átta hundruð blekteikningum sem Guðrún hefur málað á hverjum morgni í rúm tvö ár, sem einskonar leið til að fanga draumana, mynda þá, jafnvel að skilja þá, skilja sjálfa sig betur.
Fyrir Guðrúnu er þessi gjörningur einskonar rannsókn á eigin undirmeðvitund, skoðun á myndmáli og tengingu þess við arkitýpur og symbolisma og skoða hvernig draumar myndgerarst í minningunni.


Í raun er þetta ein af mörgum aðferðum hennar í leitinni og rannsókninni á sjálfri sér, leið til að fanga óþekkta hluta sjálfs síns og ala sig upp.


Draumskráningarnar eru einskonar tilraun til að afmá skilin á milli þessa heims og hins, heim drauma og hugmynda, sem koma oft frá sama stað.


Verið velkomin á listamannspjallið með Guðrúnu laugardaginn 5. júní kl 14:00.